Langisandur
Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand. Í henni felst að byggt verði hótel, baðlón og heilsulind á svæðinu. Ísold mun einnig reisa íbúðir á Akranesi.
Jafnframt er lýst yfir samstarfi aðila um stefnumörkun í ferðaþjónustu á Akranesi. Þá er einnig áformuð uppbygging á svæði ÍA þar sem m.a. verða nýir knattspyrnuvellir fyrir félagið og stórbætt aðstaða fyrir iðkendur og íbúa.
Svæðið er einstaklega skemmtilegt og býður nálægðin við Langasand, Guðlaugu og íþróttasvæði ÍA upp á spennandi möguleika og fáir staðir sem bjóða upp á ljósa sandfjöru sem snýr á móti suðri.
Fyrst hefst vinna við að greina tækifæri í ferðaþjónustu og að móta stefnu á því sviði og er áætlað að þeim fasa ljúki innan fjögurra mánaða en þá hefjist vinna við deiliskipulag og aðra slíka þætti. Mikil áhersla verður lögð á samráð og samtal við bæjarbúa og hagsmunaaðila.
,,Hér er verið að fara í gang með mjög metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu í ferðaþjónustu sem okkur hefur skort á Akranesi, en auk þess getum við bætt enn þá frekar aðstöðu fyrir íþróttastarfið hjá okkur. Þetta eru mikilvæg skref fyrir áframhaldandi vöxt Akraness og þess að auka enn við þjónustu og upplifun á þessu fallega svæði sem spilar lykilhlutverk í lífi Akurnesinga.“ sagði Sævar Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.
„Við hjá Ísold hlökkum til að byggja upp hótel og baðlón með fjölbreyttri þjónustu hér á þessu frábæra svæði og taka þannig þátt í að efla og byggja upp á Akranesi og um leið að taka þátt í að styðja við ÍA. Við getum varla beðið eftir því að hefjast handa við fyrstu verkefnin.“ sagði Aðalsteinn Jóhannsson hjá Ísold fasteignum.